top of page

Við tókum viðtal við Eyjólf Örn Jónsson. Hann er menntaður sálfræðingur og starfar hjá persónu, sem er síða þar sem sálfræðingar svara algengum spurningum um kvíða og þunglyndi. Hann ferðast um landið og heldur fyrirlestra til að fræða fólk um tölvutækni og hvernig á að nota og njóta internetsins. Hann vinnur einnig hjá Háskóla Íslands. Hann er búinn að sérhæfa sig í að hjálpa ungu fólki með vandamál, eins og til dæmis kvíða, sem tengast tölvum og tækni. Við vorum svo heppnar að fá að senda á hann fáeinar spurningar:

Eyjólfur Örn  Jónsson

Geturðu sagt okkur frá starfinu þínu?

Ég er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og hef sérhæft mig sérstaklega í að vinna annars vegar með ungu fólki og hinsvegar með vandamál sem tengjast tölvum og tækni (sérstaklega internetinu). Auk þess að vinna á stofu þar sem ég vinn í viðtalsmeðferð flesta daga þá hef ég kennt við Háskóla íslands og ferðast vítt og breitt um landið með fyrirlestra um hvað beri að varast á netinu og hvernig maður eigi að njóta internetsins.

Af hverju fer kvíðaröskun fjölgandi?

Það er ýmislegt sem bendir til þess að kvíðaröskunum fjölgi í samfélaginu og þar má örugglega nefna fjölmarga áhrifaþætti. Að mínu mati og í minni reynslu fjölgar tilfellum um kvíðaröskun vegna þess að hraðinn í samfélaginu hefur aukist til muna. Fólk hefur minni tíma til að gera það sem það þarf að gera og ásókn nýrra miðla inn á heimilin hefur aukið kröfur samfélagsins til okkar (við þurfum öll að gera svo rosalega mikið, eiga mikinn pening og flotta hluti, vera í góðu formi,skemmta okkur rosalega mikið, hafa flotta vinnu, o.s.frv). Við höfum að sjálfsögðu bara takmarkaðan tíma í sólarhringnum og því náum við ekki að standa undir þeim kröfum sem við upplifum að séu gerðar til okkar.

Spilast smáfélagsmiðlar inn í vinnu þína?

Samfélagsmiðlar spila mjög stórt hlutverk í vinnunni hjá mér. Þar upplifir fólk mikla pressu og stanslaust álag. Margir gleyma stað og stund og upplifa að þeir séu að missa af einhverju ótrúlega mikilvægu ef þeir fylgjast ekki með stanslaust því sem birtist í öppunum.

Veistu að meðaltali hversu mörg börn á ári greinast með kvíðaröskun ?

Kvíðaraskanir eru ýmsar og mismunandi hve margir greinast með hverja þeirra (almenn kvíðaröskun, félagskvíðaröskun, áráttu- þráhyggjuröskun, felmtursröskun, fóbíur). Almennt er talið að um 18% fullorðinna þjáist af einhverskonar kvíðaröskun en hjá unglingum segja tölurnar okkur að það geti verið að rúmlega 20% ungs fólks eigi við einhverskonar kvíða að stríða.

bottom of page